Hugsandi Hundar
Heilaörvun getur reynst vera mjög öflugt tól bæði í uppeldi hunda og líka í þeirra daglegu lífi.
Oft er mjög mikið að gera í okkar daglegu lífi og getur reynst misjafnlega mikill tími hvern dag sem hægt er að leggja í hundinn.
Heilaþrautir geta gert kraftaverk í að koma í veg fyrir að hundum leiðist til lengdar eða bara skemmtileg leið til að brjóta upp daginn hjá hundinum.
Þetta eru frábærar lausnir hjá ungum hundum sem hafa mikla orku en eru kannski of ungir í mikla hreyfingu, fyrir mjög klára hunda sem vantar að fá að hugsa á viðeigandi hátt í staðin fyrir að nota gáfurnar sínar í að gera hluti sem við teljum vera óæskilegt eða fyrir stressaða hunda sem vantar að ná meiri ró heima fyrir eða vantar að dreifa huganum í ákveðnum aðstæðum.
Heilaþrautir geta líka orðið skemmtileg samvinna sem styrkir og byggir upp tengsl milli hunds og eiganda.
Á þessu námskeiði verður fólk kennt að búa til sínar eigin heilaþrautir úr allskonar hlutum sem til eru á flestum heimilium og fyrst og fremst að eiga skemmtilega og gefandi samverustund með hundinum sínum.
Þetta námskeið hentar öllum hundum á öllum aldri og samanstendur af 4 verklegum tímum.
Allir tímarnir fara fram inni í þjálfunarsalnum okkar, Betri Hundar - Grandatröð 5, Hafnarfirði.
Leiðbeinandi: Elín Elísabet Bjarnadóttir.