betrihundar
Mar 20, 2024

Vandamál & lausnir, hvolpa glefs!

 

Hvolpaglefs er algengt vandamál hjá hvolpa eigendum. Hvolpar eru með beittar tennur og margir hafa litla stjórn á bit kraftinum. Hvolpaglefs er eðlileg hegðun hvolpa & nauðsynlegt fyrir þá að læra hvernig þeir geta  stjórnað hve fast þeir bíta, en þetta getur verið óþægileg. Það er á okkar ábyrgð þar sem við ákveðum að taka inn hvolp á heimilið að kenna þeim á líf okkar mannana & hvernig þeir geta leikið við okkur. Á fyrsta félagsmótunar tímabilinu, þegar hvolpar eru 3-6 vikna gamlir læra þeir að stjórna bit kraftinum með því að leika við got systkini sín. (https://www.betrihundar.is/blog/felagsmotun-hvolpa ). Þegar hvolpur er bitinn of fast af systkini sínu gefur hann frá sér sársauka væl. Hér væri eðlileg svörun við þessari hegðun að hinn hvolpurinn sleppi takinu á þeim sem vældi. Eftir þetta hrista hvolpar sig, taka smá pásu & ákveða hvort þeir vilja halda leik áfram eða fara í sitthvora áttina. Þegar þú sérð hegðun hjá hvolpinum  þínum sem þér líst  ekki á þarftu að hugsa út í það  hvað fær hvolpurinn úr hegðuninni? Hver er tilgangur hegðunarinnar & hvað styrkir þessa ákveðnu hegðun.



Nokkrar algengar ástæður af hverju hvolpar bíta/glefsa. 

 

  • Tanntaka

  • Leik glefs 

  • Útaf forvitni, þeirra leið til að kynnast heiminum

  • Fyrir athygli

  • Ofþreyta 

  • Leiði




Tanntaka 

Hvolpar fæðast tannlausir, mjólkurtennur,  fyrstu tennur hvolpa koma um 3 vikna & fá hvolpar  alls 28 mjólkurtennur. 

Tanntaka hvolpa er frá 3 mánaða & endar í kringum 7 / 8 mánaða. Þá hafa hvolpar losnað við hvolpatennur og ættu að vera komnir með allar framtíðar tennurnar, fullorðnir hundar hafa alls 42 tennur.

Hvolpar á tanntöku tímabilinu geta verið mjög órólegir. Gott er að skoða kjaftinn á hvolpum reglulega. Oft er fyrsta merki um verki og óþægindi hjá hundum hegðunarbreytingar. Þetta á við um alla verki svo það er mikilvægt að útiloka líkamlega kvilla þegar að það kemur að hegðunarbreytingum & hegðunarvanda. Svo það er mikilvægt að skoða reglulega í kjaft hvolpa, sérstaklega þegar þeir eru að eiga einstaklega erfiða daga. Oftar en ekki eru þeir tannlausir eða alblóðugir í kjaftinum sem útskýrir mögulega óróleikan. Einnig er gott að kynna inn tannbursta, tannkrem og aðra hluti sem tengjast tannheilsu.

 

Það fyrsta sem við gerum er að fyrirbyggja að hvolpur glefsi & nagi óviðeigandi hluti. Forðumst að styrkja þessar hegðanir og gefum hvolpinum næga útrás  fyrir þessum náttúrulegum hvötun. Gefum hvolpinum viðeigandi dót og/eða nagbein. Kennum þeim að togast á við reipi frekar en hendur eða föt. Forðumst að setja hvolpin eftirlitslausan í rými þar sem hann mun komast í húsgögn og skemma þau. Næst finnum við hegðunarmynstur & hvað styrkir hegðunina. 



Hvað skal gera ef hvolpur glefsar í leik? 

 

Svarið er mjög einfalt. Leikurinn tekur enda.

 

  1. Hvolpur nartar í hendur frekar en í leikfang

  2. Hunsum hvolpinn í 2-3 sek með því að standa upp og snúa baki í hann. 

  3. Ef hvolpur kann merkið sestu er hægt að biðja hvolpinn 1x um að setjast og verðlauna þá hegðun. (Annars er hægt að hoppa yfir i skref 4 þegar hvolpur er orðin rólegur.) 

  4. Næsta væri að dreifa huga hvolpsins með togleikfangi eða nagbeini sem er viðeigandi leikfang til að glefsa í. 

 

Ath ef það virkar ekki að hunsa hvolp er mikilvægt að stoppa hegðunina með slökun. 

 

Fylgjumst með hvernig leikurinn þróast, stoppum leik & tökum reglulega pásur áður en hvolpurinn fer í glefs stuð. Finnum hegðunarmynstrið! 



Glefs/nag vegna forvitnis. 

Hvolpar skoða og læra inn á heiminn með munninum. Margir hvolpar taka upp á því að naga húsgögn, veggi, stóla, borða, stela sokkum, skóm & jafnvel nærbuxum heimilismanna. Hér er byrjum við að skoða hegðunarmynstrið. Segjum að hvolpur sé sífellt að naga stofuborðið. Hvaða aðstæður bjóða upp á það? Er hægt að fyrirbyggja þessa hegðun? Munum hegðun sem er styrkt heldur áfram, hegðun sem hefur enga styrkingu er líkleg til að deyja út! 

Ef hvolpur er skilin eftir eftirlitslaus eru miklar líkur á að hann fari að naga óviðeigandi hluti, munum að hvolpar skoða & læra inn á heiminn með munninum. Fyrirbyggjum að hvolpur komist í stofuborðið með því að hafa hvolpagerði, búrþjálfa hvolpinn, fylgjast með hvolpinum og/eða hafa hann í bandi hjá þér(naflastrengs aðferðinn). Gefum hvolpinum viðeigandi hluti til að naga, ef hann sækist í stofu borðið er líklegt að honum finnist gott að naga harða hluti, ef hann sækist í skó eða sokka heimilismanna er líklegt að honum finnist betra að naga mjúka hluti, hvolpurinn gæti einnig verið að sækjast í lyktina af ykkur og finnur fyrir öryggi og vellíðan við að naga hluti sem lykta af ykkur. Finnum viðeigandi nagdót eða bein sem líkist þeirri áferð sem hvolpurinn sækist í! 







Athyglis glefs. 

Ef hvolpur glefsar til að bjóða ykkur í leik eða til að biðja um  athygli er mikilvægt að styrkja þessa hegðun ekki með athygli. Að skamma hvolpinn hér styrkir í raun hegðunina sem þið viljið ekki sjá. Hunsum hvolpinn. Fáum annan heimilismann til að taka hvolpinn í slökun ef hvolpurinn er sífellt glefsandi í ákveðin einstakling. Hér er mikilvægt að við hvorki horfum á eða tölum við hvolpinn. Í tímunum “Betri kríli” er farið vel yfir hvernig við tökum hvolp í slökun. 



Ofþreyta.

Þreyttir hvolpar  eru  skrímsli. Eitt stærsta merki um þreytu hjá hvolpum er ofur æsingur. Ofur æsingur getur komið fram í zommies, þegar hvolpur sprettir í hringi, mikið og óstöðvandi glefsi í tær, fætur eða föt. Gelt, væl & almennur óróleiki. Hvolpar þurfa að sofa í 18-20 tíma á dag. Það gefur okkur 4-6 klukkutíma á dag í þjálfun & leik. Hvolpur sem sefur ekki nægilega mikið er fljótur að breytast í skrímsli. Þegar hvolpur er kominn í ofþreytu ástand er mikilvægt að hjálpa honum að ná sér niður. Hægt er að taka hvolpinn í slökun & nýta síðan sjálfs róandi hegðun hunda til að ná þeim niður. Sjálfs róandi hegðun hunda  er þef, nag & að sleikja. Reynum að grípa hvolpinn rétt áður en hann fer í skrímsla hamin og gefum honum, þefmottu, nagbein, kong eða sleikimottu til að dunda sér við. Þá höfum við fyrirbyggt að hvolpur fari yfir um af æsing. Ef hvolpur er nú þegar farin yfir sín mörk er mikilvægt að hjálpa honum að ná sér niður. Tökum hvolpinn í tilneydda slökun, farið er yfir það í Betri Kríla tímunum, gefum svo honum rólegan stað til að ná sér niður, t.d  hvolpagerði eða búr.  Reynum einnig að fá heimilismenn í ró. Það getur verið erfitt fyrir ungan hvolpa að ná sér niður i miklu áreiti. Með þroska lærist það þó. 

 

Oft er gott að finna hegðunarmynstur og vera á skrefi á undan hvolpinum, fer hann alltaf í “zommies” kl 19:30 á kvöldin? Þá væri sniðugt að gefa honum rólegt verkefni eða hjálpa honum í ró rétt fyrir þann tíma eða 19:20. 




Glefs & nag vegna leiðis.

Munum að hvolpar skoða & læra inn á heiminn með munninum. Þeir setja flesta alla hluti upp í sig sem þeir skoða. Hvolpur sem leiðist finnur sér verkefni. Hvolpar eru klárir, oft eru þeir klárari en maður heldur. Gefum þeim viðeigandi örvun. Bæði andlega & líkamlega. Förum allavega 2x út úr húsi með á dag með hvolpinn.  Bara stutta stund í einu. Einblínum á umhverfis & áreitis þjálfun. Hvolpar eru opnastir fyrir nýju áreiti frá 6-12 vikna aldri svo það er mikilvægt að byrja strax! Gefum hvolpinum einnig viðeigandi heilaþrautir, setjum matinn þeirra í  þefmottur eða kong,  nýtum 10 mola af matnum þeirra í einfalda þjálfun í hverri máltíð.  Græjum heimagerðar heilaþrautir með klósettrúllum. Leyfum þeim að fá útrás fyrir náttúrulegum hvötum eins og að grafa eða tæta. 



Á að  skamma hvolpa sem glefsar ? 

Við mannfólkið erum mjög mikið í að segja einstaklingum hvað þeir gerður rangt, í okkar menningu hefur fólk þörf á að kenna einstaklingum lexíu ef eitthvað er ekki gert rétt eða ef einstaklingur gerir mistök. Hundar eru ekki svo flóknir. Þeir skilja ekki hvað er rétt & hvað er rangt. Hundar skilja aðeins hvað virkar & hvað virkar ekki í hverjum aðstæðum. Ef við skömmum hvolp sem glefsar í leik með því að taka um kjaftinn lærir hvolpurinn ekki að hann megi ekki bíta. Heldur lærir hann að hendur sem koma nálægt andlitinu boðar ekki gott. Þetta getur búið til allskyns vandræði í framtíðinni t.d við dýralækna heimsokn þar sem dýralæknir þarf að skoða í kjaft  hunds. Snyrtingu og almenna umhirðu. Þetta á einnig við ef við gefum hvolpinn selbit í nefið eða tökum um kynnar eða tungu hvolps, þetta brýtur traust sem við eigum að byggja upp. Hendur nálægt höfði hunds eiga alltaf að boða góða hluti, svosem klapp eða bita. Að segja hvasst “NEI” kennir hvolpinum heldur ekkert. Honum kannski bregður og hegðun stoppar, en hann lærir ekki endilega að það var vegna þess að hann beit þig. Ef við skömmum hvolp sem nagar stofuborðið lærir hvolpurinn að það er allt í lagi að naga stofuborðið þegar þú ert ekki heima, munum að nag er sjálfstyrkjandi hegðun sama hvað hvolpurinn er að naga, þá líður honum vel. En þú kemur og skemmir það. Þessi hvolpur mun líklega halda áfram að naga óviðeigandi hluti sérstaklega ef þú,sá sem skammar  er ekki viðstaddur. 


Að væla og/eða skrækja við glefs. Þetta gæti virkað með suma hvolpa. Hjá öðrum hvolpum styrkir þetta hegðunina. Allir hundar hafa ákveðið veiðieðli en það er missterkt hjá tegundum. Að væla, tísta eða skrækja gæti verið að kveikja í þessu veiðieðli & á sama tíma styrkja glefsið. Best er að hunsa hegðunina & taka hvolpinn úr aðstæðum. 





Viltu vita meira um hvolpaglefs & almenna hvolpa hegðun? Skráðu þig og hvolpinn þinn í Betri Kríli tímana sem haldnir eru alla laugardaga! Einnig getur þú skráð hvolpinn ykkar á grunnnámskeiðið okkar hér: https://www.betrihundar.is/namskeid/betri-hvolpar-grunnnamskeid1670923783



Ertu forvitinn um heimagerðar heilaþrautir og vilt vita meira? Þá er námskeiðið “Hugsandi Hundar” fullkomið fyrir ykkur: https://www.betrihundar.is/namskeid/mindgames-heilaorvun-english1699828757



Testimonial 1
Testimonial 2
Testimonial 3
Testimonial 4
Testimonial 5
Testimonial 6
Testimonial 7