NoseWork
NoseWork er leitar íþrótt sem er byggð á fíkniefna og sprengjuleit.
Markmiðið með íþróttinni er að hafa aðgengilega tómstund fyrir heimilishunda og eigendur þeirra.
Flest allir hundar hafa vinnudrif, hafa gaman af verkefnum og að vinna með fólkinu sínu, hvað þá að þefa, eitthvað sem allir hundar eru færir um og telst vera mjög náttúruleg hegðun fyrir þá.
Staðreyndin er sú að í okkar upptekna heimi þá fá hundarnir okkar ekki alltaf þá örvun sem þeir myndu vilja og/eða þurfa fyrir utan hreyfingu.
Fólk er almennt með mikla dagskrá og mikið gengur á, þar með tekst ekki alltaf að gefa hundinum þá útrás sem þarf.
NoseWork er gífurlega hentug íþrótt fyrir nútíma samfélag, það þarf ekki að hafa mikið fyrir þessu eða fjárfesta miklum tíma í að halda þessu við, það er svo náttúruleg hegðun fyrir hunda að þefa.
Íþróttin samanstendur af fjórum leitarflokkum, ílátaleit, innanhúsleit, utanhúsleit og farartækjaleit.
Allir hafa þessir flokkar mismunandi áskoranir og hindranir sem skemmtilegt er að takast á við.
NoseWork er mjög skemmtileg upp á það að gera að það er alltaf hægt að gera þetta erviðara og erviðara fyrir þá sem eru mjög færir í íþróttinni.
Fjögur erfiðleikastig eru í íþróttinni.
NoseWork 1 (NW1)
NoseWork 2 (NW2)
NoseWork 3 (NW3)
Elite
NoseWork 1 er byrjunarstigið, þar er unnið með Eukalyptus hydrolat sem lykt, á keppnum er bara ein fela á leitarsvæðinu og engar truflandi lyktir mega vera viljandi lagðar fyrir hundinum.
Reglurnar breytast svo töluvert þegar farið er í NW2 og NW3, þar bætast við nýjar lyktir og líka truflandi lyktir, lyktin getur verið hærri og leitarsvæðin stærri.
Elite er svo orðin mikið flóknari flokkur.
Hérna á Íslandi er þessi Íþrótt að stækka mjög hratt. Það eru komnir margir viðurkenndir þjálfarar og mörg námskeið í boði.
Íslenski NoseWork klúbburinn sér um að halda utan um íþróttina, viðburðina og þjálfarana en þjálfararnir sjá um að halda námskeið og lyktarpróf.
Þegar að teymi (hundur og maður) hafa lært inn á lyktina í þeim flokki sem þau eru stendur þeim til boða að taka svokalla lyktarpróf.
Lyktarpróf geta verið mjög gagnleg bæði til að sjá hvert maður er kominn og hvað teymið má bæta í sínu fari hvað íþróttina varðar, þau geta líka gagnast til að prófa hundinn í öðrum aðstæðum en hann er kannski vanur, fá smá tilfinningu fyrir því hvernig það væri að keppa.
Aðal tilgangurinn á bakvið lyktarpróf er að sjálfsögðu að ná prófinu og hafa þar með réttindi til að keppa á öllum keppnum á vegum klúbbsins og geta tekið virkan þátt í íþróttinni.
Lyktarpróf gilda á teymið, sem þýðir að bara sá einstaklingur sem fer í prófið með hundinum sínum hefur lyktarpróf með þann hund, hyggist einhver annar keppa með sama hundinn þarf sá einstaklingur að ljúka lyktarprófi með sama hundinn til að þau teljist sem gilt teymi.
Lyktarprófið gildir svo æfilangt fyrir teymið og munu þau ekki þurfa að fara aftur í lyktarpróf í þann flokk.
Þau munu þurfa að fara aftur í próf fyrir næsta flokk ef þau færast upp í NW2 til dæmis.
Ef að menn kjósa svo í framhaldi að keppa (eitthvað sem ég mæli með að allir prufi, það er ótrúlega skemmtilegt) þá þarf að skrá sig í Íslenska NoseWork klúbbinn.
Í keppni eru alltaf fjórar leitir, þær geta verið samansettar af fjórum leitum í sama flokki (fjórar innanhúsleitir til dæmis) eða einni leit í hverjum flokk (eina innanhús, eina utanhúss, eina farartækja og eina ílátaleit) en alltaf eru fjórar leitir í NW1, NW2 og NW3 en það fer eftir flokki hversu margar felur (lyktir) og/eða truflandi lyktir eru á leitarsvæði.
Aðal markmiðið er að finna feluna án þess að vera með villur, það í grunninn er alveg nógu erfitt en það er líka settur ákveðinn tími á leitarsvæði sem hvert teymi hefur til að finna feluna og það er svo sótt í tíman til að reikna stigin ef að fleiri en eitt teymi nær leit án þess að vera með villur.
Reglurnar í NoseWork eru ekkert svakalega flóknar, aðal reglan og tilgangurinn í íþróttinni finnst mér mjög falleg: Íþróttin snýst fyrst og fremst um hundinn, að honum lýði vel og það sé gaman sem gerir það að verkum að ein af mikilvægustu reglunum er að það er bannað að refsa hundinum.
Svo eru almennar reglur um að hundar mega ekki gera þarfir inn á leitarsvæði, fólk má ekki handfjatla hluti á leitarsvæði eða búa til truflandi lykt á annan hátt.
Hægt er að nálgast allar keppnisreglur inn á heimasíðu Íslenska NoseWork klúbbsins, inwk.is.
Sjálf kynntist ég NoseWork þar sem ég átti unga Border Collie tík sem var mjög stressuð, hrædd við umhverfið sitt og lífið almennt.
Ég fékk mér þessa tegund með það í huga að við myndum stunda saman allar hundaíþróttir og sigra heiminn saman, með þetta viðkvæma eintak þá gekk það ekki upp, hún hafði samt mikla orku og ég mikla löngun til að gera eitthvað með henni.
Á öllum NoseWork keppnum og viðburðum er borið virðingu fyrir hrædda hunda, stressaðir og hræddir hundar eiga það til að sýna þessar tilfinningar í hegðun sem margir myndu flokka sem árásagirni, í mörgum íþróttum er hundum brottvísað af keppnissvæði fyrir slíka hegðun, í NoseWork er borið virðingu fyrir því sem kallast guli borðinn. Ef að hundur er merktur með gulum borða þýðir það að hann þurfi meira persónulegt rými og öðrum keppendum ber að virða það.
NoseWork gerði það ekki bara að verkum að ég fann íþrótt sem ég gat stundað með minn viðkvæma hund, þetta gaf henni ótrúlega góða útrás fyrir orkuna sína og stressið, hjálpaði henni að róa sig og vera til í allskonar umhverfum sem hún áður fyrr gat ekki verið í, hún fór að taka vinnuna framyfir áreitið og ekki nóg með það heldur var hún bara ótrúlega góð í þessari íþrótt.
Ég mæli daginn í dag alveg hiklaust með NoseWork fyrir hunda sem eru stressaðir, örir, óöruggir eða ef þeir glíma við líkamlega kvilla eins og liðagigt og hafa skerta hreyfigetu.